
Ekki þarf að rekja fyrir lesendum hvernig Ísland fór úr þeirri stöðu að vera hagkerfi þar sem kaupmáttur var einn sá mesti í heiminum og yfir í hagkerfi þar sem kaupmátturinn er tugum prósenta lægri en áður eins og hendi væri veifað.
Heimskreppa á fjármálamörkuðum sópaði hluta af íslenska hagkerfinu á haf út og skyldi eftir grunninn sem við höfum byggt á alla síðustu öld.
Við íslendingar áttum okkur ekki á því að hversu sterk staðan okkar er þrátt fyrir þetta mikla áfall. Íbúar þessa lands er afar lánssamir að því leyti að landið er geysilegt ríkt af náttúruauðlindum sem mun tryggja trausta afkomu þjóðarinnar. Okkar grunnur liggur í framleiðslu og útflutningi sem er lykillinn að því að við getum verið frjáls þjóð í fallegu landi. Nýjustu útflutningsgreinarnar eru m.a. hugbúnaðargerð, leikjaframleiðsla og hönnun af ýmsu tagi. Þetta eru greinar sem ekki ganga á auðlindir landsins en bæta miklu við þjóðarframleiðsluna.
Nú gæti einhver verið farinn að velta fyrir sér titlinum á pistlinum, hann er ekki í samhengi við það sem hér að ofan greinir. Hann er samt ábending um raunverulega áhættu sem við stöndum frammi fyrir. Það er þessi áhætta sem tifar eins og tímasprengja og hefur gert allan tímann frá hruninu, nú er hins vegar farið að styttast í að afleiðingarnar verði sýnilegar.
Það sem ég er að tala um er sú staðreynd að við erum að smá saman að breyta öllu hagkerfinu í vaxtavinnuvél fyrir lánadrottna. Eftir að skuldir heimila og fyrirtækja tvöfölduðust með falli krónunnar þá höfum við beitt ýmsum brögðum til að fresta verkjunum. Við frystum lánin, við smíðuðum teygjulán, við greiddum bara vexti og slepptum höfuðstólnum. Nú er þessi tími liðinn og alvaran tekin við.
Í hagkerfi sem gengur vel þá ferðast hver króna allt að 8 sinnum um hagkerfið og skilur eftir sig verðmæti í hverri ferð. Til að skýra þetta aðeins: Jón kemur og kaupir eldsneyti fyrir 5.000, N1 leggur peninginn inní banka, bankinn lánar Sigurði 5.000 til að kaupa sér farsíma, símafélagið leggur peninginn inní bankann og bankinn lánar Guðrúnu fyrir nýju barnarúmi, húsgagnaverslunin leggur peninginn í banka og svo framvegis. Þetta er eðlilegt og heilbrigt hagkerfi sem snýr hjólum atvinnulífsins og skapar störf og þjóðarframleiðslu.
Þessi hringrás er hins vegar að breytast og það hratt. Ferillinn sem fer í gang er eitthvað á þessa leið að peningarnir sem renna í gegnum hagkerfið enda inní bönkunum sem koma þeim ekki aftur út í hagkerfið. Ástæðan fyrir því að peningarnir komast ekki aftur útí hagkerfið er sú að stærsti hluti atvinnulífsins og stór hluti heimila er of skuldsettur og því ekki lánshæfur.
Það þýðir að krónurnar hætta að ferðast og skapa störf og þjóðarframleiðslu í leiðinni. Þegar kaupmáttur hefur dregist jafnmikið saman og raun ber vitni þá hefur atvinnulífið ekki hagnað til að byggja upp og endurnýja búnað, heimilin geta ekki viðhaldið eignum sínum og eða endurnýjað. Allt laust fé fer til að greiða niður skuldir og vexti og krónurnar komast ekki aftur í umferð.
Síðan gerist það ofaní kaupið að bankar leysa til sín einhver fyrirtæki með því að breyta skuldum í hlutafé. Þá gæti einhver haldið að björninn væri unninn, þ.e.s.a. skuldir hafa lækkað og því gæti félagið fjárfest í rekstrinum, það virkar samt ekki þannig. Eigandinn þarf að fá arð af sinni eign þannig að laust fé félagsins rennur til bankans sem arður og festist þar.
Til lengri tíma þá ber allt að sama brunni, neysla dregst mikið saman og störfum fækkar enn. Færra fólk stendur undir verðmætasköpuninni og þá er borin von að hægt sé að halda uppi því velferðakerfi sem við gjarnan viljum búa við.
Hærri skattar gegna nákvæmlega sama hlutverki og of mikil skuldsetning. Hið opinbera tekur ráðstöfunarfé frá fjölskyldum og færir í ríkissjóð sem á endum nýtir peningana til að greiða laun til opinberra starfsmanna sem síðan greiða skuldir sínar við lánastofnanir og peningarnir sitja þar fastir.
Það er ekki samt þannig að allir landsmenn séu svo skuldugir að þeir hafi ekkert fé á milli handa sem betur fer. Það er hins vegar svo mikil óvissa um framtíðina að flest hugsandi fólk sem gæti verið virkt í hagkerfinu heldur að sér höndum vegna óvissunar og stöðugra hótana um enn frekari skattahækkanir og atvinnumissir gæti verið handan við hornið.
Svo merkilegt sem það hljómar þá er besti tíminn til að stofna fyrirtæki einmitt núna í miðri kreppu, það er hins vegar varla hægt að mæla með því við nokkurn mann vegna þess að andrúmsloftið er andsnúið fyrirtækjarekstri.
Það hefur ekki verið á stjórnvöldum að heyra að þau telji mikilvægt að auka verðmætasköpun til að spyrna gegn hratt minnkandi kaupmætti, þau telja hins vegar brýnt að kynjagreina vandann.
Þegar allt kemur til alls þá snýst velferðin um að afla meiru en við eyðum, þegar samdráttur verður þá þarf að leita allra leiða til að auka kraftinn í atvinnulífinu en ekki öfugt.
Það má sjá skýra efnahagsleg niðurstöðu í kosningunum um helgina.
Langstærsti hluti hins efnahagslega tjóns varð á höfuðborgarsvæðinu, það er þar sem mestar breytingar urðu á hinu pólitíska landslagi. Kjósendur láta ekki bjóða sér að öll þeirra framtíð sé í uppnámi vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, þeir heimta árangur og breytingar. Þegar horft er til landsbyggðarinnar þá skýrast línur verulega.
Íbúar á landsbyggðinni búa yfir mikið betri jarðtengingu en borgarbúar. Það gera þeir vegna þess að framleiðslugreinarnar hafa ávallt verið hryggsúlan í þeirra lífi og án uppskeru verða ekki til nein verðmæti. Þetta skilur landsbyggðin betur en aðrir auk þess sem þeim var ekki treyst fyrir erlendum lánum í sama mæli og okkur hinum og því kemur hrunið mikið minna við þeirra stöðu en ella.
Hvaða skilaboð komu frá landsbyggðinni í kosningunum? Kjósendur höfnuðu ríkishyggju vinstri aflanna og kusu með verðmætasköpun með því að kjósa Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í stórum stíl. Hvergi er skýrara kveðið uppúr með þá staðreynd að án þess að hlúa að atvinnulífinu með öllum ráðum verður engin velferð.
Framundan eru erfiðustu kjarasamningar í langan tíma. Atvinnurekendur hafa sjaldan verið í veikari stöðu til að bæta kjör sinna starfsmanna og á sama tíma seilast stjórnvöld stöðugt lengra ofaní launaumslagið með tilheyrandi tjóni fyrir hagkerfið allt. Kaupmáttur á Íslandi verður að aukast og það hratt, það verður ekki gert með þeirri hugmyndafræði sem nú ræður ríkjum.
Íslendingar eru vel upplýst þjóð og þeir vita að verðmætin verða ekki til bloggheimum eða í sjónvarpinu.
Hermann Guðmundsson

