
Reglulega berast fregnir af glæpum og ránum sem hafa átt sér stað á Norðurlöndunum. Oft eru glæpirnir „alvöru“; eins og í bíómyndunum. Glæpirnir virðast
úthugsaðir og mikið í þá lagt. Notaðir eru flóttabílar, fjárhæðirnar hlaupa á milljörðum og oftar en ekki stendur löggan á gati við að finna
glæpamennina. Mikið hlýtur að vera spennandi að vera lögga á Norðurlöndunum. Fyrir stuttu var sagt frá því hvernig þrír menn rændu uppboðshús í
Stokkhólmi. Þeir voru vopnaðir byssum og ruddust inn og rændu skartgripum fyrir 12 milljónir sænskra króna. Svo komust þeir undan á bíl sem fannst
mannlaus. Über-töff alveg. Og hver man ekki eftir Munch-málinu frá árinu 2004? Tveir þjófar löbbuðu inn á Munch-listasafnið, annar ógnaði gestum og
vörðum með byssu á meðan hinn fór og tók niður tvær myndir, önnur þeirra var þekktasta verk Munchs, Ópið. Norsk yfirvöld dæmdu þrjá menn tæpum tveimur
árum seinna, í maí 2006, fyrir glæpinn, þrátt fyrir að finna ekki málverkin. Þau fundust síðan í ágúst sama ár en hvort réttu mennirnir sitja inni
liggur ekki fyrir. Ekki má gleyma frændum okkar Dönunum. Þeir eru með Vítisenglagengi þar sem notaðar eru basúkkur og handsprengjur þegar sýður upp úr
milli gengja. Mjög töff.
Glæpamenn á Íslandi eru hinsvegar ekki mjög töff. Rán á Íslandi snúast sjaldnast um að stela af þeim ríku, sem fólki finnst hvort sem er eiga makleg
málagjöld skilið. Almenningur fær fregnir af glæpum í fjölmiðlum sem snúast um mál eins og þegar tveir einstaklingar hittast í annarlegu ástandi og
annar drepur óvart hinn. Unglingsstúlkum sem afgreiða í sjoppum er ógnað með sprautunál og ræningjarnir komast undan með 2000 kall. Glæpir – já, töff –
nei. Þeir sem eru að verki eru yfirleitt góðkunningjar löggunnar, þannig að lítið er um spennandi, óupplýst glæpamál hér nema kannski Geirfinnsmálið sem
reyndar er orðið gamalt og þreytt. Það sem kemur næst þarf engan að undra og eru ekki nýjar fréttir. Glæpamenn landsins sitja í bönkunum og nú eftir
hrun hafa komið fram nýjar leiðir til að ræna og blóðmjólka fólk. Ránin fara fram um hábjartan dag og eru hvorki dularfull né spennandi. Burtséð frá
öllu því svínaríi sem átti sér stað fyrir hrun eru bankarnir komnir með nýjar vinnureglur: „Höldum í gömlu skuldarana og höfum af þeim allar þeirrar
krónur.“ Þá er verið að meina í viðbót við þær sem þeir hafa haft af þeim í gegnum árin. Þó bankarnir séu ekki enn í eigu útrásarvíkinga sem létu búa
til vafasamar vinnureglur í bönkunum þá eru sömu vinnureglur við lýði og þar er ekkert að breytast.
Reynslusaga ungrar konu
Ein saga sem á sér ábyggilega hliðstæðu: Ung kona á uppleið, einstæð með börn, útskrifast úr skóla með fína gráðu. Þessi kona hefur alla tíð búið í
leiguhúsnæði, en sér fram á að þurfa að velja sér fasta búsetu þar sem börnin eru að byrja í skóla. Litla fjölskyldan býr saman í of litlu leiguhúsnæði
sem því miður er á sölu og getur þeim verið sagt upp leigunni hvenær sem er. Hvað er þá hægt að gera? Ókei. Hún er í fínni vinnu og aukavinnu og á
inneign í banka og sér fram á að geta keypt sér íbúð. Með útreikningum sér hún að viðráðanlegt er að yfirtaka lán á íbúð sem hún hefur augastað á.
Tilboð og gagntilboð eru gerð og allt er klappað og klárt og farið er í greiðslumatsferli í bankanum.
Íbúðin sem um ræðir er eign Íslandsbanka, yfirveðsett, og er búið að fá vilyrði bankans um afskriftir og annað – þessi skitnu 10% sem bankarnir eru að
bjóða af einskærri gæsku sinni. Konan fær svo símtal frá bankanum daginn eftir þar sem henni er tjáð „að þetta líti bara alls ekki vel út.“ Hún fær
yfirlitið sent á tölvupósti og sér þar stórkostlegar villur, því allar tölur eru mjög óraunhæfar og alls ekki í samræmi við það sem hún hefur áætlað.
Reiknað er með hámarksframfærslu barna, heilum 25% ofan á það sem Ráðgjafarstofa heimilanna mælir með. Einhverjum lið sem kallaður er „öryggismörk“
hefur bankinn bætt inn í greiðslumatið og hljóðar hann upp á 31.000 krónur aukalega á mánuði. Barnabætur eru lækkaðar um 30.000 kall á mánuði og
vaxtabætur eru ekki teknar inn í dæmið, þrátt fyrir að þær séu vissulega í formi peninga á bankareikningi. Launin eru lækkuð, þrátt fyrir að fyrir liggi
staðfesting yfirmanns á hærri tekjum. Verktakavinnu sem ekki þarf að gefa upp strax má alls ekki taka með. Í stuttu máli sagt; greiðslumat bankans segir
að þar sem afborganir fari yfir 35% á mánuði af heildartekjum, en bankinn reiknar út að greiðslubyrðin sé 48% á mánuði, fái hún ekki greiðslumat. Hún
pantar tíma hjá yfirmanni þjónustufulltrúans og fer með útreikninga sína á Exelskjali. Á hennar pappírum sést greinilega að útreiknuð prósenta sem færi
í afborgun á íbúðinni er einungis um 31% á mánuði. Hvað hefur gerst hérna? Gerði bankinn mistök? Mistök í útreikningi?
NEI.
Bankinn gæti leiðrétt greiðslumatið og sett inn réttar tölur á launum og þáttum sem teljast til tekna. Bankinn sem slíkur gæti samþykkt greiðslumatið á
þeim forsendum. Þrátt fyrir það er málið ekki í höfn því vandinn er sá að samþykkt greiðslumat bankans er sent fyrir sérstaka lánanefnd. Lánanefndin sér
það að seljendurnir, sem eru útivinnandi hjón, eru „öruggari“ greiðendur en einstæða móðirin. Bankinn rígheldur í seljendurna og samþykkir ekki sölu
íbúðarinnar. Enda er íbúðin yfirveðsett sem þýðir hærri afborganir á lánum fyrir íbúðareigandann og bankanum líkar heldur ekki að þurfa að afskrifa.
Seljandi þessi sem um ræðir hefur fengið nokkur tilboð í eignina en alltaf hefur bankinn vísað málum frá, þrátt fyrir að markaðsvirði eignarinnar sé
langt undir því sem hvílir á henni. Bankinn svíkur loforð sín um afskriftir á áhvílandi lánum og þrátt fyrir fullkomið greiðslumat eru þeir með sérstaka
lánanefnd sem hefur ýmsar leiðir til að hafna tilvonandi kaupendum, t.d. með geðþóttaákvörðunum um öryggismörk og ósanngjarnt álag á viðmið til
framfærslu. Segjum svo að bankinn samþykki greiðslumat vegna yfirtöku láns. Kaupandinn hefur þá ekkert val og fær ekki gamla lánið sem hvíldi á íbúðinni
og var á ágætum (a.m.k. viðráðanlegum) vöxtum. Hann fær hinsvegar nýtt vaxtalán með breyttum kjörum og þyngri greiðslubyrði; fyrsta árið fær hann
„afslátt“ eða lánið á 5,75% vöxtum, annað árið ber 6,75% vexti og á þriðja ári og öll árin þar á eftir ber lánið 7,75% vexti. Það þýðir fyrir hinn nýja
kaupanda aukna vexti, kostnað og margfalt þyngri greiðslubyrði. Kaupandinn á reyndar val um hvort hann vill fasta vexti eða breytilega vexti, en hvort
tveggja er mikil áhætta meðan ástandið er eins og það er.
Hjónin sem þrá að losna við yfirveðsetta íbúð eiga engra annarra kosta völ en að hætta að greiða af íbúðinni, sem er þó hægara sagt en gert, þar sem að
bankinn veit fyllilega að leigjandi er til staðar í íbúðinni. Þau eru föst í fjötrum eignarhalds bankans. Ef hjónin ákveða að hætta að greiða af
íbúðinni neyðist bankinn til að leyfa sölu og afskrifa eða þá að bankinn tekur til sín íbúðina með því að leysa hana til sín á uppboði. Hvað hefur
bankinn að gera við slíkt safn af íbúðum, því sannarlega mun hann eignast safn af íbúðum á komandi misserum með þessum aðferðum? Eru þeir að bíða eftir
að markaðurinn taki við sér og selja svo eignasafnið til fjárfesta og hirða mismuninn sjálfir? Hvað með eðlilegt flæði á fasteignamarkaðnum? Eða
samfélagslega ábyrgð bankanna?
Eins og staðan er í dag hafa lánastofnanir enga samfélagslega ábyrgð á herðum sínum. Þær geta varla tapað fyrr en búið er að elta viðkomandi skuldara út
fyrir gröf og dauða. Lánastofnanir hafa verið að ráðleggja fólki að taka hærri lán á húsin sín til að kaupa stærri og betri bíla til að ná upp í einhver
útlánamarkmið bankanna. Fólk hefur grandalaust tekið við slíkum boðum og situr nú í svo stórri súpu að einstaklingar munu aldrei ráða við vandamálið á
einni starfsævi. Lánastofnanir og bankar bera enga ábyrgð á gjörðum sínum.
Endalaust á eftir einstaklingum
Ef kerfið okkar væri á þá vegu að aðeins væri hægt að ganga að húseigninni en ekki að skuldaranum umfram húseignina þá hefðu bankarnir ekki stundað slík
viðskipti – þeir hefðu passað uppá hverja krónu og séð til þess að húseignirnar væru örugglega þess virði sem getið var um í kaupsamningi. Þeir hefðu
t.d. aldrei lánað erlenda krónu til venjulegs Íslendings sem hefur tekjur í krónum. Einfaldlega vegna þess að áhættan væri of mikil fyrir bankann. En
eins og kerfið býður upp á er áhætta þeirra mjög lítil því hægt er að eltast endalaust við einstaklinga- ábyrðin er ekki takmörkuð og því þurfa
bankarnir ekki að hugsa um sveiflur í gengi krónunnar og vita að þeir geta endalaust sótt verðbætur ofan í vasa þeirra sem taka verðtryggð lán. Með því
að fella gengi krónunnar tókst bönkunum að tryggja sér gífurlega hækkun á innlendum eignum sínum- þessi hækkun var skráð sem hagnaður og þar af leiðandi
greiddur út sem bónus til yfirmanna. Þetta skapar ójafnræði á milli samningsaðila og gæti talist á gráu svæði. Með því að takmarka ábyrgðina við
húseignina eða bílinn sem lánið er lánað út á þarf bankinn að gera allt sem hann getur til að valda stöðugleika í fjármálalífinu til að tapa ekki á
útlánum sínum. Þetta væri allra hagur.
Þannig hefði bankinn verið knúinn til að taka samfélagslega ábyrgð á gjörðum sínum og vandað sig við að lána ekki of hátt hlutfall af eigninni og að
öllum líkindum alls ekki í erlendri mynt. Þetta myndi koma í veg fyrir gjaldþrot hundruð heimila.
Svo aftur sé vikið að glæpamönnunum, þá er glæpur gegn vinnandi fjölskyldum á landinu glæpur sem ekki borgar sig. Slíkur glæpur er lágkúrulegur, eins og
að ræna veskjum af gömlum konum eða að stela söfnunarbauknum í kirkjunni. Að halda fjölskyldum í heljargreipum bankans sem hirða ekki um annað en sig og
sinn gróða getur ekki gengið til lengdar. Nýleg frétt á mbl.is vísar í skýrslu Seðlabankans;
Efnahagur heimila hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum í kjölfar bankahrunsins, gengislækkunar krónunnar og verðbólgukúfsins sem henni fylgdi. Í
skýrslunni er vísað til rannsóknar á stöðu heimilanna sem kynnt var í apríl [2010] en þar kom fram að 23% heimila séu líkleg til að lenda í
greiðsluerfiðleikum og þurfi á frekari úrræðum að halda. Tæplega 40% skuldugra heimila eru með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði. Heimilin hafa þurft að
laga sig að breyttum aðstæðum, draga úr einkaneyslu, selja eignir og endurskipuleggja skuldir til þess að vinda ofan af þeirri stækkun efnahagsreikninga
sem einkenndi aðdraganda fjármálakreppunnar.
Þetta eru hræðilegar fréttir og það þarf engan vísindamann til að sjá í hvað stefnir. Auðvitað viðgengst ýmislegt á Norðurlöndunum líka. Það er ekki
málið. Íslendingar eru bara orðnir úrvinda að reyna að láta enda ná saman og eru í stöðugri baráttu við bankann sem hefur sínar eigin reglur og viðmið.
Bankinn gefur sér alls kyns forsendur sem eru einfaldlega ekki réttlætanlegar. Almenningur krefst þess að fleiri verði dregnir til ábyrgðar og að
vinnulagsreglum og bankalögum verði breytt – til hagsbóta fyrir heimilin.
No comments:
Post a Comment